top of page
Search
  • Writer's pictureVarða rannsóknastofnun vinnumarkaðarins

#metoo og vinnustaðir


Nú stendur yfir önnur #metoo bylgja þar sem konur stíga fram og segja frá reynslu sinni af kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Ofbeldi og áreitni eru inngróin í samfélagsgerðina og eiga sér stað alls staðar þar sem fólk kemur saman: inni á heimilum, í almannarýminu og á vinnustöðum. Gerendur eru í miklum meiri hluta karlar og konur eru stærstur hluti þolenda.

Félagsmálaskóli alþýðu, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins boða til hádegisfundar þar sem athyglinni verður beint að birtingarmyndum og áhrifum #metoo á vinnustaði. Hvernig á að fjalla um #metoo byltinguna á vinnustöðum? Hvað lærðum við af síðustu bylgju sem spratt fram í seinnihluta árs 2017 og hvernig hefur reynslan verið síðan þá? Hefur eitthvað breyst og hverjar eru orsakir þess að konur þurfa að stíga aftur fram og greina frá sárri reynslu?

Sólborg Guðbrandsdóttir, fyrirlesari og aktívisti, fjallar um upp úr hvaða jarðvegi yfirstandandi #metoo bylgja rís. Fríða Rós Valdimarsdóttir, teymisstjóri fræðslumála Eflingar, fjallar um samhengi ofbeldis og áreitni við jafnréttismál í víðari skilningi og greinir frá mikilvægum atriðum sem stjórnendur og samstarfsfólk á vinnustöðum þurfa að hafa í huga þegar samfélagsumræða um ofbeldi er í hámæli, ekki síst í ljósi þess að vinnustaðir geta bæði verið vettvangur ofbeldis og áreitni og inni á vinnustöðum geta verið bæði þolendur og gerendur. Að lokum ræðir Hulda Dóra Styrmisdóttir, verkefnastjóri á mannauðssviði Landsspítala, um viðbrögðin við síðustu #metoo bylgju og hvernig reynslan hefur verið að breyttu verklagi og breyttri umræðu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni. Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands stýrir fundinum. Viðburðurinn er öllum opinn. Hann fer fram á íslensku og boðið er upp á túlkun á ensku.


Smelltu á hlekkinn til að taka þátt: us02web.zoom.us

44 views0 comments

Comments


bottom of page