top of page

Margrét Einarsdóttir, Kolbeinn Hólmar Stefánsson og Kristín Heba Gísladóttir

ÚTDRÁTTUR: Erlendar rannsóknarniðurstöður benda til þess að félags- og efnahagslegur ójöfnuður í geðheilsu hafi aukist í COVID-19 faraldrinum. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða tengsl þunglyndiseinkenna við fjárhagsþrengingar og annan félags- og efnahagslegan ójöfnuð á tímum kórónuveirunnar hjá íslensku launafólki sem tilheyrir aðildarfélögum innan ASÍ og BSRB. Aðferðir: Rannsóknin er þýðisrannsókn sem byggir á spurningakönnun á stöðu launafólks á Íslandi og var lögð fyrir í árslok 2020. Alls svöruðu 8461 rannsókninni, eða 7,0% þýðisins. Gögnin voru vigtuð til að þau endurspegli sem best þýðið. Þunglyndiseinkenni voru sjálfsmetin með PHQ-9 kvarðanum. Spurt var um tvær tegundir fjárhagsþrenginga, efnislegan skort og að ná endum saman. Niðurstöður byggjast á einbreytu- og fjölbreytutvíundargreiningum. Niðurstöður sýna að líkur á þunglyndi aukast eftir því sem félags- og efnahagsleg staða er verri. Þegar stjórnað er fyrir öðrum félags- og efnahagslegum áhættuþáttum og líkamlegri heilsu vegur efnislegur skortur þyngst í áhættunni en skýringarmáttur þess að ná endum saman er minni en bæði líkamlegrar heilsu og aldurs. Ályktun: Verulegur félags- og efnahagslegur ójöfnuður er hérlendis í þunglyndiseinkennum launafólks á tímum COVID-19. Aðgerðir stjórnvalda til að tryggja afkomu og lífkjör fólks í COVID-kreppunni gengu of skammt. Stjórnvöld þurfa ávallt og óháð efnahagsástandi að tryggja öllum framfærslu sem dugir fyrir lágmarksneysluviðmiðum.

LYKILORÐ: Geðheilsa – fjárhagsþrengingar – COVID-19

bottom of page