top of page
Lógó ferhyrnt með texta JPG.jpg
Starfsreglur stjórnar

Meginmarkmið stjórnar er að sjá til þess að stofnunin vinni að markmiðum sínum. Tilgangur Vörðu er að efla rannsóknir og kennslu á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála.  

 

1. gr.

Almennt

Reglur þessar eru settar á grundvelli samþykkta Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins.

Stjórn félags fer með æðsta vald Vörðu á milli aðalfunda.

 

 

2. gr.

Hagsmunatengsl

Stjórnarfólk og framkvæmdastjóri skulu greina frá hagsmunatengslum, hvort heldur persónulegum sem viðskiptalegum, sem valdið geta vanhæfi í almennum stöfum eða einstaka verkefnum.

 

3. gr.

Skipan stjórnar

Stjórn Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, er skipuð fimm aðalmönnum til tveggja ára í senn sem kjörnir eru á aðalfundi ár hvert samkvæmt tilnefningu frá eigendum, tveir stjórnarmenn koma frá ASÍ, tveir frá BSRB og einn sérfræðingur í rannsóknum á rannsóknarsviði stofnunarinnar sem er skipaður samkvæmt samkomulagi ASÍ og BSRB. Kynjahlutfall skal vera eins jafnt og kostur er.

 

3. gr.

Skipting starfa innan stjórnar

Á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi þar sem stjórnarkjör fer fram skal stjórn skipta með sér verkum. Kosið er í embætti formanns og ritara. Ritari er jafnframt varaformaður og gjaldkeri. Stofnaðilarnir ASÍ og BSRB skipa til skiptis embætti formanns og embætti ritara.

 

4. gr.

Hlutverk stjórnar

Stjórn tekur stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina og fylgir eftir markmiðum hennar. Hún tekur ákvarðanir í óvenjulegum og mikilsháttar málum.

Stjórn fer með æðsta vald í málefnum stofnunarinnar og sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma um innri starfsemi stofnunarinnar.

Stjórn hefur fjárhagslegt eftirlit með starfsemi stofnunarinnar, gerir fjárhagsáætlanir og fylgist með að farið sé að settum reglum um fjárreiður. Einnig hefur hún eftirlit með árangri og vinnubrögðum stofnunarinnar.

 

Stjórnarmenn taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig með hagsmuni stofnunarinnar að leiðarljósi.

 

Stjórn ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans og hefur eftirlit með störfum hans.

 

5. gr.

Starfsskyldur stjórnar

Stjórnarfólk mætir á boðaða fundi nema forföll hamli því. Forföll skal tilkynna framkvæmdastjóra sem boðar fundi í umboði formanns. Starf stjórnar fer almennt fram á stjórnarfundum sem skulu haldnir eigi sjaldnar en á mánaðarfresti yfir vetrartímann. Við ákvarðanatöku ræður einfaldur meirihluti.

 

Formaður ber meginábyrgð á starfsemi stjórnar. Hann vinnur náið með framkvæmdastjóra. Ber ábyrgð á að koma nýju stjórnarfólki inn í störf stjórnarinnar og verkefni stofnunarinnar. Hann stýrir stjórnarfundum, tryggir að stjórn hafi nákvæmar og skýrar upplýsingar og gögn til að sinna verkefnum sínum og að stjórn og framkvæmdastjóri meti störf sín og endurskoði starfsreglur.

 

Ritari ber ábyrgð á að fundagerðir séu ritaðar og að þær séu varðveittar. Hann er jafnframt varaformaður og gjaldkeri.

 

Sérfræðingur í rannsóknum veitir faglegar ráðleggingar, aðstoð við hönnun rannsókna og er framkvæmdastjóra innan handar varðandi rannsóknatengd viðfangsefni.

 

 

6. gr.

Þóknun vegna stjórnarstarfa

Félagslega kjörið stjórnarfólk fær ekki greitt sérstaklega fyrir stjórnarsetu. Sérfræðingur í rannsóknum fær þóknun fyrir stjórnarstörf enda getur hann ekki sinnt starfinu innan síns aðalstarfs og veitir hann stofnunni nauðsynlega fagþekkingu. Þóknunin er ákveðin 40.000 kr. á mánuði og skal fjárhæðin endurskoðuð árlega af formanni og varaformanni í kjölfar aðalfundar.

 

7. gr.

Verksvið framkvæmdastjóra

 

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur og ber ábyrgð á fjármálarekstri stofnunarinnar. Hann sér til þess að áætlanir og bókhald sé haldið í samræmi við lög og veitir endurskoðanda og stjórn aðgang að öllum þeim gögnum sem óskað er eftir. Hann er með prófkúru fyrir hönd Vörðu og hefur heimild til að skuldbinda stofnunina fjárhagslega innan ramma hins daglega rekstrar, en samþykki stjórnar þarf fyrir verulegum skuldbindingum utan þess ramma.

Framkvæmdastjóri boðar stjórnarfundi og undirbýr dagskrá þeirra í samráði við formann. Stjórnarfundir skulu haldnir með a.m.k. þriggja daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina frá dagskrá fundar. Á hverjum stjórnarfundi skal framkvæmdastjóri gera grein fyrir helstu atriðum í starfsemi stofnunarinnar frá síðasta fundi. Framkvæmdastjóri situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt. Framkvæmdastjóri ritar fundargerðir fyrir hönd ritara og heldur utan um þær.

Framkvæmdastjóri skal annast daglegan rekstur stofnunarinnar í samræmi við stefnu og fyrirmæli stjórnar. Hann sér til þess að stjórnarfólk fái nákvæmar upplýsingar um allt það sem viðkemur stofnunni. Framkvæmdastjóri skal ávallt starfa af heilindum og með hagsmuni stofnunarinnar að leiðarljósi. Starfsstöð framkvæmdastjóra er í húsnæði þess eiganda sem fer með formennsku á hverjum tíma. Framkvæmdastjóri getur komið fram fyrir hönd stofnunarinnar.“

 

Samþykkt af stjórn Vörðu 18. júní 2020.

bottom of page