top of page
Lógó ferhyrnt með texta JPG.jpg

Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, til heimilis að Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík (hér eftir nefnt „ASÍ“) og BSRB, kt. 440169-0159, til heimilis að Grettisgötu 89, 105 Reykjavík, (hér eftir sameiginlega nefndir „aðildar“) gera með sér svohljóðandi:

STOFNSAMNING OG SAMÞYKKTIR

VARÐA – RANNSÓKNASTOFNUN VINNUMARKAÐARINS

1. INNGANGUR

1. 1 Aðilar hafa náð samkomulagi um að standa að samstarfsverkefni sem hefur það að leiðarljósi að efla rannsóknir og kennslu á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála, sbr. samkomulag dagsett þann 14. október 2019. Til grundvallar liggja sameiginleg markmið samtakanna að þróa þekkingu á lífsskilyrðum, byggja brýr á milli fræðasamfélagsins, rannsóknarheimsins og verkalýðshreyfingarinnar auk þess að hvetja til sjálfstæðra rannsókna sem hafa þýðingu fyrir launafólk. Stofnsamningi og samþykktum þessum er ætlað að skilgreina samstarf aðila nánar, kveða á um réttindi og skyldur þeirra og skilgreina með hvaða hætti samstarfið skuli fara fram.

1.2 Samstarf aðila á grundvelli samnings þessa skal ekki vera í fjárhagslegum tilgangi og verður rekstrarafgangi ekki úthlutað til stofnenda eða annarra aðila sem að félaginu koma. Rekstrarafgangi skal eingöngu varið til framtíðarverkefna félagsins. Verkefnið er fjármagnað með aðildargjöldum stofnenda þess, þ.e.a.s. ASÍ og BSRB, og eftir atvikum aðildargjöldum fleiri aðila sem að félaginu muni koma í framtíðinni.

 

2. STOFNENDUR, STOFNFRAMLAG OG ÖNNUR FRAMLÖG

2.1 Stofnendur félagsins eru Alþýðusamband Íslands (ASÍ), kt. 420169-6209, til heimilis að Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík og BSRB, kt. 440169-0159, til heimilis að Grettisgötu 89, 105 Reykjavík.

2.2 Stofnframlag hvors stofnanda um sig er kr. 1.000.000,- eða samtals kr. 2.000.000,-.

2.3 Stjórn félagsins getur samþykkt aðild fleiri aðila að félaginu með viðbótarframlögum og þarf til þess samþykki allra stjórnarmanna, sbr. ákvæði 4. gr.  

2.4 Félaginu verður að meginstefnu fjármagnað með aðildargjöldum félaga stofnenda og eftir atvikum öðrum aðilum að félaginu, framlögum frá stofnendum, styrkjum,        auglýsingatekjum eða eftir atvikum öðrum framlögum.

3. MARKMIÐ

3.1 Markmið félagsins er að efla og búa til vettvang fyrir rannsóknir og kennslu á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála. Er því ætlað að þróa þekkingu á lífsskilyrðum og er mikilvægur liður í að framfylgja stefnu heildarsamtaka launafólks og leggja þannig grunn að þróun umræðu um bætt kjör. Með fræðslu og útgáfu efnis styrkist samtök launafólks og möguleikar þeirra til áhrifa á kjör og lífsskilyrði launafólks. Hlutverk og marmið er því er einkum að:

     (a)  Efla og stunda fræðilegar rannsóknir og kennslu á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála.

 

     (b)  Taka þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi rannsakenda.

 

     (c)   Skapa rannsóknaaðstöðu fyrir sjálfstætt starfandi fræðimenn og unga vísindamenn sem sinna     

             verkefnum á vegum stofnunarinnar.

 

     (d)   Veita nemendum í rannsóknarnámi aðstöðu og búnað til rannsóknarstarfa og veita nemendum

            þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna

            rannsóknarstörf á vegum samstarfsverkefnisins eftir því sem unnt er.

 

     (e)   Að veita fræðilega ráðgjöf og upplýsingar.

 

     (f)    Að standa fyrir útgáfu efnis, safna saman og gera aðgengilegar rannsóknir annarra um sama

            efni

 

     (g)   Að standa fyrir miðlun þekkingar í gegnum rannsóknir, námskeið, fyrirlestra, ráðstefnur og

            málstofur

 

     (h)   Að sinna öðrum verkefnum á sviði vinnumarkaðsfræða samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni

4. FÉLAGSSTJÓRN

 

4.1 Stjórn skipa fimm aðalmenn til tveggja ára í senn. Tveir stjórnarmenn koma frá ASÍ, tveir frá BSRB og einn sérfræðingur í rannsóknum á rannsóknarsviði félagsins sem er skipaður samkvæmt samkomulagi ASÍ og BSRB.

4.2 Kynjahlutfall í stjórn skal vera eins jafnt og kostur er. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, en kosnir skulu a.m.k. ritari sem jafnframt skal vera varaformaður og gjaldkeri.

4.3 Stjórn tekur stefnumarkandi ákvarðanir fyrir félagið og fylgir eftir markmiðum þess. Stjórnin fer með fjármál félagsins og ber ábyrgð á þeim gagnvart miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB. Stjórn sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma um innri starfsemi félagsins.

4.4 Stjórn getur heimilað einstaklingum og rannsóknarhópum að vinna verkefni á vegum félagins. Stjórn skal gera fjárhagáætlun í upphafi hvers árs.

4.5 Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda félagið. Stjórn getur veitt prókúruumboð fyrir félagsins hönd.

4.6 Stjórnarfundir skulu boðaðir með a.m.k. þriggja daga fyrirvara. Formaður boðar til stjórnarfundar óski stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri þess. Í fundarboði skal greina frá dagskrá fundar.

4.7 Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála.

4.8 Haldin er gjörðabók stjórnarfunda og skulu viðstaddir stjórnarmenn staðfesta fundargerð með undirritun sinni.

4.9 Stjórn skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

5. FRAMKVÆMDASTJÓRI

5.1 Stjórn ræður framkvæmdastjóra sem er prófkúruhafi félagsins. Hlutverk og ábyrgð framkvæmdastjóra er að:

     (a)  annast og halda utan um daglegan rekstur félagsins,

 

     (b)  annast reikningagerð, bókhald, og annað sem við kemur rekstri félagsins,

 

     (c)  hafa yfirumsjón með rekstrarútgjöldum og rekstrarafkomu félagsins,

 

     (d)  sjá um samskipti við verkefnastjórn í umboði stjórnar.

 

5.2 Framkvæmdastjóri gerir tillögur að starfsáætlun og fjárhagsáætlun til samþykktar stjórnar hvers árs, fyrst í upphafi samningstíma og svo fyrir lok nóvember ár hvert fyrir næsta ár.

5.3 Hlutverk og ábyrgð framkvæmdastjóra skal að öðru leyti vera í samráði við stjórn, eftir þí sem við á. Stjórnin setur framkvæmdastjóra erindsbréf um starfssvið hans.

5.4 Áður en framkvæmdastjóri tekur mikilvægar ákvarðanir er varða starfsemi félagsins skal hann taka upp mál á vettvangi stjórnar. Mikilvægar ákvarðanir teljast t.a.m. ákvarðanir sem kalla á umtalsverð fjárútgjöld m.t.t. umfangs félagsins eða eru á einhvern hátt óvenjulegar með hliðsjón af tilgangi félagsins.

6. FJÁRHAGS- OG STARFSÁÆTLUN

 

6.1 Stjórn félagsins skal leggja fjárhags- og starfsáætlanir fyrir miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB til samþykktar a.m.k. árlega.

6.2 Félagið skal ekki stofna til skuldbindinga nema fyrir liggi að fjármögnun sem félagið á í sjóði á hverjum tíma.

6.3 Stjórn skal kjósa löggildan endurskoðanda eða endurskoðendafélag til að endurskoða reikninga félagsins fyrir hvert reikningsár. Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir endurskoðendur eigi síðar en 31. ágúst ár hvert. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

7. UPPLÝSINGAMIÐLUN

7.1 Félagið skal miðla framtíðarsýn sinni, stefnumörkun og árangri með skýrum hætti á heimasíðu og samfélagsmiðlum, sem og í fjölmiðlum, á ráðstefnum og fundum eftir því sem við á.

7.2 Samningsaðilar heita því að halda trúnað um allar niðurstöður verkefna meðan á viðkomandi verkfeni stendur og þar til niðurstöður þess hafa verið birtar opinberlega af hálfu félagsins.

7.3 Gæta skal að því að kanna möguleika á hugverkavernd áður en niðurstöður eru ræddar, birtar eða kynntar á opinberum vettvangi. Aðilar koma sér saman um meðferð og eignarhald hugverka sem verða til í verkefninu. Ef niðurstöður rannsóknaverkefnis leiðir af sér einkaleyfishæfa uppfinningu gilda ákvæði laga nr. 72/2004, um uppfinningar starfsmanna.

8. AÐALFUNDUR

8.1 Aðalfund skal halda fyrir lok maí ár hvert og skal stjórn boða til hans með hæfilegum fyrirvara. Á aðalfundi fara forseti ASÍ og formaður BSRB með atkvæði sinna samtaka en rétt til setu á aðalfundi hafa aðal- og varamenn í miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB ásamt stjórn samstarfsverkefnisins. Stjórn verkefnisins er heimilt að bjóða öðrum að sitja aðalfund félagsins sem áheyrnarfulltrúum. Áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt.

8.2 Fundarboð skal sent aðal- og varamönnum miðstjórnar ASÍ og aðal- og varamönnum stjórnar BSRB. Rafrænt fundarboð telst fullnægjandi.

8.3 Eftirfarandi málefni skulu rædd á aðalfundi:

 

     (a)  Kosning fundarstjóra og fundarritara

 

     (b) Skýrsla stjórnar lögð fram

 

     (c)  Reikningar lagðir fram til samþykktar

 

     (d)  Kosning stjórnar

 

     (e) Kosning endurskoðenda

 

     (f)  Önnur mál

9. FRAMSAL OG BREYTINGAR

9.1 Aðilum samnings þess er óheimilt að framselja hlutdeild sína í félaginu, réttindi sín eða skyldur samkvæmt samþykktum þessum í heild eða að hluta, nema með áður fengnu skriflegu samþykki allra aðila.

9.2 Sé aðila heimilað slíkt framsal af gagnaðilum, skal tryggt að sá sem tekur við hlutverkinu gagnist við og taki yfir allar þær skyldur og réttindi, sem framseljandi hafði stofnað til eða öðlast gagnvart öðrum aðilum samnings þess um efndir þessa samnings og önnur málefni tengd félaginu.

9.3 Hvers kyns breytingar eða viðbætur á samþykktum þessum skulu gerðar skriflega og vera samþykktar af öllum stjórnarmönnum á tveimur stjórnarfundum sem haldnir skulu með a.m.k. einnar viku millibili. Þá skal einnig liggja fyrir samþykki þeirra aðila sem lagt hafa minnst 2/3 hluta stofnfjár eða framlags sem farið er með atkvæði fyrir. Til að auka skuldbindingar aðila að félaginu þarf þó samþykki allra.

10. SLIT

10.1 Með tillögur um slit og skipti á félaginu skal fara með sem breytingar á samþykktum þessum. Komi til þess að félagið verði lagt niður skal hrein eign þess renna til hliðstæðra verkefna og tilgreind eru í 3. Gr. Eftir nánari ákvörðun stjórnar.

11. ÁGREININGUR, LÖG OG LÖGSAGA

11.1 Um samning þennan gilda íslensk lög.

11.2 Verði ágreiningur milli aðila í tengslum við efni samningsins eða framkvæmd á einstökum ákvæðum hans skulu aðilar leitast við að leysa ágreininginn með samkomulagi sín á milli. Náist slíkt samkomulag ekki, er hverjum aðila um sig heimilt að leggja ágreininginn fyrir dómstóla og skal málið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

12. UNDIRRITUN OG SAMNINGSEINTÖK

 

12.1 Samningur þessi, sem er í tólf (12) greinum á fimm (5) blaðsíðum, er undirritað í tveimur (2) eintökum, einu fyrir hvern samningsaðila og skal hvert eintak fullgilt sem frumrit. Samningur þessi er undirritaður af til þess bærum fulltrúum aðila, sem til þess hafa fullgilda heimild, í viðurvist tveggja vitundarvotta er staðfesta rétta dagsetningu og undirritanir.

bottom of page