Lógó ferhyrnt með texta JPG.jpg
SAMÞYKKTIR

1. gr.

Félagið er sjálfseignastofnun og er nafn þess Varða - Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins ses. ​


2. gr. 

Heimili og varnaþing Vörðu - rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins ses. er í Reykjavík.


3. gr.

Tilgangur stofnunarinnar er að efla rannsóknir og kennslu á sviði vinnumarkaðar, félags- efnahagsmála.

Stofnunin er vettvangur rannsókna og fræðslu á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála í víðum skilningi. Hlutverk og markmið rannsóknastofnunarinnar er einkum:

 • Að efla og stunda fræðilegar rannsóknir og kennslu á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála

 • Að taka þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi rannsakenda

 • Að skapa rannsóknaaðstöðu fyrir sjálfstætt starfandi fræðimenn og unga vísindamenn sem sinna verkefnum á vegum stofnunarinnar

 • Að veita nemendum í rannsóknanámi aðstöðu og búnað til rannsóknarstarfa og veita nemendum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna rannsóknarstörf á vegum stofnunarinnar eftir því sem unnt er

 • Að veita fræðilega ráðgjöf og upplýsingar

 • Að standa fyrir útgáfu efnis, safna saman og gera aðgengilegar rannsóknir annarra um sama efni

 • Að standa fyrir miðlun þekkingar í gegnum rannsóknir, námskeið, fyrirlestra, ráðstefnur og málstofur

 • Að sinna öðrum verkefnum á sviði vinnumarkaðsfræða samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. 


4. gr.

Stofnendur stofnunarinnar eru Alþýðusamband Íslands (ASÍ; kt 420169-6209, til heimilis að Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík og BSRB; kt. 440169-0159, til heimilis að Grettisgötu 89, 105 Reykjavík.

Framlag ASÍ er kr. 1.000.000 og framlag BSRB er kr. 1.000.000. 

5. gr. 

Stofnfé stofnunarinnar er kr. 2.000.000, sem er framlag stofnenda félagsins skv. 4. gr. Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnendum hennar. 

6. gr. 

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar. 

7. gr. 

Tekjur stofnunarinnar geta meðal annars verið fjárframlög frá ASÍ og BSRB, með styrkum, greiðslum fyrir rannsóknatengd þjónustuverkefni, tekjur af útgáfu, framlög, styrkir og gjafir frá stofnunum, einkaaðilum eða einstaklingum. 

Jafnframt aðrar tekjur eins og vaxtatekjur, styrkir, gjafir, auglýsingatekjur eða önnur framlög sem stofnunni kunna að berast. 

Framkvæmdastjóri gerir fjárhagsáætlun fyrir hvert ár auk þess sem gerð er fjárhagsáætlun fyrir öll verkefni sem unnin eru á vegum rannsóknastofnunarinnar. 

8. gr.

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Stjórn hennar skal boða til fundarins með hæfilegum fyrirvara. Á aðalfundi fara forseti ASÍ og formaður BSRB með atkvæði sinna samtaka en rétt til setu á aðalfundi hafa aðal- og varamenn í miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB ásamt stjórn rannsóknastofnunarinnar. Stjórn rannsóknastofnunarinnar er heimilt að bjóða öðrum að sitja aðalfund stofnunarinnar. Áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt.

Fundarboð skal sent aðal- og varamönnum miðstjórnar ASÍ og aðal- og varamönnum stjórnar BSRB. Rafrænt fundarboð telst fullnægjandi. 

Eftirfarandi málefni skulu rædd á aðalfundi:

 • Skýrsla stjórnar um starfsemi stofnunarinnar á undangengnu ári flutt og rædd.

 • Reikningar síðastliðins árs kynntir, ræddir og afgreiddir.

 • Lýst kjöri stjórnar skv. 9.gr. 

 • Önnur mál


9. gr. 

Stjórn skipa fimm aðalmenn til tveggja ára í senn. Tveir stjórnarmenn koma frá ASÍ, tveir frá BSRB og einn sérfræðingur í rannsóknum á rannsóknarsviði stofnunarinnar sem er skipaður samkvæmt samkomulagi ASÍ og BSRB.

Kynjahlutfall í stjórn skal vera eins jafnt og kostur er. Framkvæmdastjóri rannsóknastofnunarinnar er starfsmaður stjórnar.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, en kosnir skulu a.m.k. ritari sem jafnframt skal vera varaformaður og gjaldkeri.

Stjórn tekur stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina og fylgir eftir markmiðum hennar. Stjórnin fer með fjármál stofnunarinnar og ber ábyrgð á þeim gagnvart miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB. 

Stjórn sker úr í vafaatriðum sem upp kunna aðkoma um innri starfsemi stofnunarinnar.

Stjórnin getur heimilað einstaklingum og rannsóknarhópum að vinna verkefni á vegum stofnunarinnar. Stjórn skal gera fjárhagsáætlun í upphafi hvers árs. 

Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prófkúruumboð fyrir stofnunina.

Stjórnarfundir skulu boðaðir með a.m.k þriggja daga fyrirvara. Formaður boðar til stjórnarfundar óski stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri þess. Í fundarboði skal greina frá dagskrá fundar.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála.

Haldin er gjörðabók stjórnarfunda og skulu viðstaddir stjórnarmenn staðfesta fundargerð með undirritun sinni.

Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar. 

10. gr. 

Stjórn stofnunarinnar ræður framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar. Stjórn ákveður starfskjör hans.

Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri stofnunarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. 

Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Framkvæmdastjóri á rétt til setu á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður. Framkvæmdastjóri ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar, sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

11. gr. 

Stofnunin hefur sjálfsætt fjárhald. Fjárhagsáætlanir og uppgjör skulu kynnt og staðfest af miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB. 

Til að skapa rannsóknastofnuninni rekstrargrundvöll tryggja ASÍ og BSRB sameiginlega fjármagn sem nemur launum framkvæmdastjóra rannsóknastofnunarinnar. Skal sú tilhögun tekin til endurskoðunar fyrir aðalfund hverju sinni, í fyrsta sinn árið 2022. 

12. gr.

Stjórn stofnunarinnar skal velja löggiltan endurskoðanda (eða endurskoðendafélag) til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert reikningsár. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

13. gr.

Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir endurskoðendur eigi síðar en 31. ágúst ár hvert. 

14. gr.

Hagnaði sem verður af starfsemi stofnunarinnar skal varið til þeirra verkefna er greinir í 3. gr. samþykkta þessara. Þó er stjórn hennar heimilt að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur stofnunarinnar.

Hugsanlegt tap af starfsemi stofnunarinnar verður greitt úr sjóðum félagsins eða fært á næsta reikningsár.

15. gr. 

Heimilt er að breyta samþykktum stofnunarinnar og þarf til þess samþykki allra stjórnarmanna stofnunarinnar á tveimur fundum stjórnar, sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili, svo og samþykki þeirra aðila sem hafa lagt fram minnst 2/3 hluta þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir. Til að auka skuldbindingar aðila þarf þó samþykki þeirra allra. 

16. gr.

Með tillögum um slit og skipti á stofnunni skal fara sem um breytingar á samþykktum þessum. Komi til þess að stofnunin verði lögð niður skal hrein eign hennar renna til hliðstæðra verkefna og tilgreind eru í 3. gr. eftir nánari ákvörðun stjórnar. 

17. gr. 

Þar sem ákvæði samþykkta þessara ná ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

Samþykkt á fundi Vörðu - rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins Ses. í Reykjavík 16. janúar 2020.