top of page
Search
Writer's pictureVarða rannsóknastofnun vinnumarkaðarins

Ójöfnuður meðal kvenna á Íslandi á sér margs konar birtingamyndir

Ný rannsókn fræðikvenna við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins sýnir að ójöfnuður meðal kvenna á Íslandi eftir stétt og stöðu á sér margs konar birtingarmyndir. Konur á lágum launum (lægri laun en 499 þúsund) eiga erfiðara með að ná endum saman en aðrar konur og hærra hlutfall þeirra býr við efnislegan skort. Auk þess hafa þær í meiri mæli þurft fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi, vinum eða ættingjum og félags- eða hjálparsamtökum.

Konur á lágum launum telja einnig líklegra en aðrar konur að lífskjör þeirra muni versna nokkuð eða mikið næsta árið. Hærra hlutfall kvenna með lág laun og meðal laun hefur  þurft að neita sér um mat svo börn þeirra fái nóg að borða.


-          Byrði vegna umönnunar barna og heimilis er meiri meðal kvenna með lág laun og grunnskólamenntun.

·  Hærra hlutfall kvenna með lág laun eru mjög eða frekar oft truflaðar í vinnu vegna áhyggna af skuldbindingum tengdum heimili og fjölskyldu. Konur með lág laun eru líklegastar til að gera nokkuð eða miklu meira en sinn skerf af heimilisstörfum miðað við maka sinn.

·  Konur með háskólamenntun, há laun og í fastlaunastétt eru líklegastar til að vera með áhyggjur af vinnu þegar þær eru ekki í vinnunni.

-          Háskólamenntaðar konur búa síst við efnislegan skort.

·  Þær eru einnig líklegastar til að eiga sparnað sem nemur einum mánaðarlaunum og aðrar eignir svo sem hlutabréf eða húsnæði í útleigu.

-          Traust til opinberrar þjónustu er ólíkt eftir menntun, tekjum og stétt.

·  Lægst er hlutfall kvenna með grunnskólapróf sem telja að þær geti fengið aðstoð frá opinberum stofnunum ef eitthvað kæmi upp á. Sama á við um konur með lág laun og í verkastétt.

-          Líkamleg heilsa er verst meðal kvenna með grunnskólapróf eða sambærilega menntun.

·  Mikill munur er á mati kvenna á líkamlegri heilsu sinni eftir menntun. Hæst er hlutfall kvenna með háskólamenntun sem metur líkamlega heilsu sína góða, því næst kvenna með stúdentspróf, en lægst er hlutfallið meðal kvenna með grunnskólapróf.

-          Skýrt mynstur er milli launa og andlegrar líðan.

·  Konur með háskólamenntun eru í öllum tilfellum ólíklegri til að mælast með klínísk einkenni þunglyndis, kvíða og streitu heldur en konur með menntun á grunn- eða framhaldsskólastigi.

·  Konur með lág laun meta hamingju sína minni en konur með hærri laun. Skýrt mynstur er milli launaflokka og hamingju.

-          Hærra hlutfall kvenna með lág laun er með lítið félagslegt bakland.

·  Tæplega þriðjungur háskólamenntaðra kvenna gæti  leitað til þriggja eða fleiri einstaklinga ef þær þyrftu skyndilega peningaupphæð sem samsvarar viku launum, en sama á við um fimmtung kvenna með grunnskólapróf. Hæst er hlutfall láglaunakvenna sem ætti engan til að leita til í slíkum aðstæðum.

·  Hæst er hlutfall láglaunakvenna sem ekki gætu fengið pössun í einn til tvo daga fyrir börnin sín ef þær þyrftu óvænt að fara í burtu.

Rannsóknin byggir á könnun meðal kvenna á vinnualdri á Íslandi og sá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri um framkvæmd hennar. Í heildarúrtakinu var 3.361 kona og svaraði 1.251 sem gerir svarhlutfallið 37%. Rannsóknina leiddi Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, í samstarfi við Andreu Hjálmsdóttur, lektor við Háskólann á Akureyri, Valgerði S. Bjarnadóttur, lektor við Háskóla Íslands, Bergljótu Þrastardóttur, lektor við Háskólann á Akureyri og Vörðu - Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins. Rannsóknin var styrkt af Jafnréttissjóði Íslands, Byggðarannsóknasjóði og Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri.

 

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.



72 views0 comments

Comments


bottom of page