top of page
Search

Ný skýrsla Vörðu sýnir ójafna skiptingu heimilisstarfa meðal karla og kvenna

  • Writer: Varða rannsóknastofnun vinnumarkaðarins
    Varða rannsóknastofnun vinnumarkaðarins
  • 9 hours ago
  • 2 min read
ree

Konur sinna heimilisstörfum og ábyrgð heimilisins langt umfram karla. Verkskipting hjá konum og körlum í sambúð er mjög hefðbundin þar sem konur sjá í mun meira mæli um verkefni sem eru dagleg eða unnin oft í viku og innandyra en karlar sjá frekar um störf sem eru unnin utandyra og oftar tilfallandi. Samkvæmt niðurstöðunum sinnir meirihluti kvenna alltaf eða yfirleitt þvotti og þrifum á heimilinu. Karlar sinna hins vegar mun frekar viðhaldi, bílum og reiðhjólum.


Jafnari ábyrgð á fjármálum og matseld

Ögn jafnari verkaskipting kemur fram í verkefnum sem snúa að matseld og fjármálum heimilisins. Þó hallar á konur þegar kemur að matargerð en nærri helmingur kvenna sér alltaf eða yfirleitt um það sem snýr að innkaupum, eldamennsku og frágangi eftir mat. Hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna sem sinnir alltaf eða yfirleitt fjármálum heimilisins eða ríflega fjórir af hverjum tíu.


Konur og karlar meta framlag sitt til heimilisstarfa með ólíkum hætti

Þegar kemur að verkefnum sem karlar segjast sinna í meira mæli en konur, svo sem viðhaldi og umhirðu bíla, er talsvert samræmi milli svara kynjanna um verkskiptingu á heimilinu. Karlar telja sig þar bera meginábyrgð og stór hluti kvenna segir að maki þeirra sjái um þau verkefni. Þegar hins vegar kemur að verkefnum sem konur segjast sinna í meira mæli, eins og þrifum og þvotti, er samræmið minna. Þar telur stór hluti karla að verkefnunum sé jafnt skipt sem rímar ekki við svör kvennanna. Þetta bendir til þess að talsverður munur sé á því hvernig karlar og konur meta eigið framlag til heimilisstarfa.


Konur bera ábyrgð á fleiri þáttum sem falla undir þriðju vaktina

Konur bera langt umfram karla ábyrgð á skipulagi og utanumhaldi heimilisins en umtalsvert hærra hlutfall kvenna en karla ber alltaf eða yfirleitt ábyrgð á sex af átta þáttum sem spurt var um í könnuninni og heyra undir svokallaða þriðju vakt. Þriðja vaktin er hugtak notað til að lýsa þeirri hugrænu vinnu sem felst í að muna eftir og skipuleggja hina ýmsu þætti er varða heimilislíf.  


Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins leggur árlega fyrir könnun meðal launafólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Í könnun Vörðu var spurt um skiptingu heimilisstarfa meðal sambúðarfólks. Rannsóknin náði til félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB – heildarsamtaka stéttafélaga starfsmanna í almannaþjónustu. Þetta er fimmta árið í röð sem könnun á lífsskilyrðum launafólks er gerð og hefur fjöldi svara aldrei verið meiri en nú þar sem tæplega 25.000 svör bárust. 10.254 svarendur voru í sambúð og eru til grundvallar í rannsókninni.

 

Í skýrslunni er að finna ítarlega greiningu á niðurstöðum rannsóknarinnar Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.


 
 
 

Comments


©2020 Varða - rannsóknastofnun vinnumarkaðarins.

bottom of page