top of page
Search
  • Writer's pictureVarða rannsóknastofnun vinnumarkaðarins

Varða birtir tvær nýjar rannsóknir á högum ungs fólks utan vinnumarkaðar og náms

Niðurstöður rannsókna Vörðu sýna að staða ungmenna af erlendum uppruna hefur versnað og ungar konur sem hafa reynslu af því að stunda utan vinnumarkaðar og náms lýsa margvíslegum samfélagslegum og stofnanabundnum hindrunum.


Undanfarna áratugi hefur dregið úr atvinnuþátttöku ungmenna víðast hvar í aðildarríkjum OECD. Samhliða því hefur orðið fjölgun í hópi ungmenna sem stunda hvorki nám né atvinnu (NEET) og gildir það sama á Íslandi. Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins kynnti í dag niðurstöður tveggja rannsókna á þessum hópi.

Töluleg gögn frá Hagstofu Íslands voru notuð til að greina umfang hópsins og meta þá bakgrunsþætti sem hafa tengsl við virkni ungmennanna. Niðurstöður sýna að þótt þróun á fjölda í NEET-hópnum virðist vera nátengd stöðunni á vinnumarkaði eru ákveðnir bakgrunnsþættir sem hafa mikil tengsl við virkni ungmenna. Bakgrunnsþættir á borð við kyn, aldur, menntunarstig, félags- og efnahagslega stöðu foreldra og fjölskyldugerð hafa til að mynda nokkurt forspárgildi um virkni ungmenna og hvort þau tilheyra NEET-hópnum eða ekki. Til dæmis er hlutfall ungra einstæðra foreldra og barna á heimilum einstæðra foreldra í NEET-hópnum töluvert hærra en hjá öðrum hópum. Að sama skapi eru karlar lítillega útsettari gagnvart því að lenda í NEET-hópnum en konur. Með öðrum orðum gilda ákveðnar almennar tilhneigingar um ungmenni út frá lýðfræðilegum bakgrunni þeirra og sterk félags- og efnahagsleg staða ungmennis virðist veita ákveðna vernd gagnvart því að lenda í NEET-hópnum. Aftur á móti eru tækifæri, aðstæður og forsendur ungmenna á Íslandi mjög breytilegar eftir uppruna ungmennum með erlendan bakgrunn almennt í óhag. Þannig er umfang NEET-hópsins töluvert meira í hópi ungmenna með erlendan bakgrunn en meðal innfæddra ungmenna. Að sama skapi sýna niðurstöður að áhrifa- og áhættuþættir í tengslum við NEET-hópinn hafa dramatískari afleiðingar fyrir ungmenni af erlendum uppruna en innfædd. Þrátt fyrir þessa almennu tilhneigingu eru ungmenni með erlendan bakgrunn ekki einsleitur hópur og aðstæður þeirra mjög breytilegar þegar hópurinn er skoðaður eftir ítarlegum upprunaskilgreiningum.Í rýnihóparannsókn þar sem rætt var við ungar konur af erlendum uppruna sem voru eða höfðu verið í NEET-hópnum kom í ljós að þær bjuggu við margþættar hindranir í íslensku samfélagi í gegnum kerfisbundna aðgangsstýringu og útilokun sem hvíla einna helst á tveimur tegundum hindrana. Í fyrsta lagi samfélagslegar hindranir sem tengjast viðhorfi og viðmóti Íslendinga í garð innflytjenda sem konurnar upplifa niðurlægjandi og útilokandi. Í öðru lagi stofnanabundnar hindranir sem virðast aftra konunum einna helst frá ríkri samfélagslegri þátttöku. Birtingarmyndir þessara hindrana eru sömuleiðis fjölþættar og tengjast vinnumarkaði, menntakerfi og aðgengi að öðrum gæðum samfélagsins í gegnum kröfu um íslenskukunnáttu og svo fjárhagslegar hindranir. Krafan um íslenskukunnáttu er sömuleiðis rauður þráður í öllum frásögnum þeirra og tengist samfélagslegum og stofnanabundnum hindrunum órjúfanlegum böndum.

300 views0 comments

Comentarios


bottom of page